Discover millions of ebooks, audiobooks, and so much more with a free trial

Only $11.99/month after trial. Cancel anytime.

Heiður í húfi
Heiður í húfi
Heiður í húfi
Ebook428 pages6 hours

Heiður í húfi

Rating: 0 out of 5 stars

()

Read preview

About this ebook

Þetta byrjar allt með sakleysislegu bréfi. En bréfið sem faðir Adams Scott ánafnar syni sínum er allt annað en sakleysislegt. Það inniheldur upplýsingar sem gætu breytt valdajafnvægi stærstu þjóða heims og áður en hann veit af er Adam kominn á flótta, ekki aðeins frá CIA og KGB, heldur einnig samlöndum sínum. Markmið þeirra er einfalt: Að drepa hann áður en sannleikurinn kemur í ljós. Meira að segja þeir sem Adam eru næstir koma til með að svíkja hann og hann áttar sig á að málið snýst um annað og meira en bara líf og dauða; hér er heiður í húfi.-
LanguageÍslenska
PublisherSAGA Egmont
Release dateJul 22, 2022
ISBN9788728200681
Author

Jeffrey Archer

Jeffrey Archer, whose novels include the Clifton Chronicles, the William Warwick novels and Kane and Abel, has topped bestseller lists around the world, with sales of over 300 million copies. He is the only author ever to have been a #1 bestseller in fiction, short stories and non-fiction (The Prison Diaries). A member of the House of Lords for over a quarter of a century, the author is married to Dame Mary Archer, and they have two sons, two granddaughters and two grandsons.

Related to Heiður í húfi

Related ebooks

Related categories

Reviews for Heiður í húfi

Rating: 0 out of 5 stars
0 ratings

0 ratings0 reviews

What did you think?

Tap to rate

Review must be at least 10 words

    Book preview

    Heiður í húfi - Jeffrey Archer

    Heiður í húfi

    Translated by Björn Jónsson

    Original title: A matter of honour

    Original language: English

    Cover image: Shutterstock

    Copyright © 1986, 2022 Jeffrey Archer and SAGA Egmont

    All rights reserved

    ISBN: 9788728200681

    1st ebook edition

    Format: EPUB 3.0

    No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.

    www.sagaegmont.com

    Saga is a subsidiary of Egmont. Egmont is Denmark’s largest media company and fully owned by the Egmont Foundation, which donates almost 13,4 million euros annually to children in difficult circumstances.

    FYRSTI HLUTI

    KREML MOSKVU

    19. maí 1966

    1. KAFLI

    KREML MOSKVU

    19. maí 1966

    „Þetta er eftirlíking," sagði rússneski leiðtoginn og horfði íhugandi á lítið undurfagurt myndverkið sem hann hélt í höndum sér.

    „Það getur ekki verið, ansaði starfsbróðir hans í Politburo. „Keisaraíkoninn með heilögum Georg og drekanum hefur verið í Vetrarhöllinni í Leningrad í öruggri gæslu í meira en fimmtíu ár.

    „Satt er það, félagi Zaborski, sagði gamli maðurinn, „en við höfum verið að gæta eftirlíkingar í fimmtíu ár. Keisarinn hlýtur að hafa fjarlægt frumgerðina einhvern tíma áður en Rauði herinn hélt inn í Pétursborg og hertók Vetrarhöllina.

    Yfirmaður Öryggislögreglunnar ók sér órólegur í stólnum meðan kötturinn hélt áfram að leika sér að músinni. Zaborski vissi ofur vel eftir alla stjórnartíð sína í KGB hver hafði verið valinn í músarhlutverkið þegar síminn hringdi heima hjá honum klukkan fjögur um morguninn og tilkynnt var að aðalritarinn bæði hann að koma til Kremlar — tafarlaust.

    „Hvernig getur þú vitað með vissu að þetta er eftirlíking, Leonid Ilyich?" spurði litli maðurinn.

    „Það vill svo til, minn kæri Zaborski, að allir kjörgripir í Vetrarhöllinni hafa verið aldursgreindir á síðustu átján mánuðum með kolefnismælingu, en það er vísindaleg aðferð sem tekur af öll tvímæli, sagði Brezhnev og lá ekki á nýfenginni vitneskju sinni. „Og þá reynist það sem við höfum alltaf talið meðal kjörgripa þjóðarinnar, hélt hann áfram, „vera málað fimm hundruð árum síðar en frummynd Rublevs."

    „En hver hefur gert það og í hvaða tilgangi?" spurði yfirmaður Öryggislögreglunnar vantrúaður.

    „Sérfræðingar segja að það hafi að öllum líkindum verið hirðmálari, ansaði rússneski leiðtoginn. „Honum hlýtur að hafa verið falið að mála eftirmyndina fáeinum mánuðum áður en byltingin varð. Forstöðumaður safnsins í Vetrarhöllinni hefur alltaf furðað sig á því að silfurkórónu keisarans vantaði aftan á umgjörðina, þótt hún sé á öllum öðrum kjörgripum hans, bætti Brezhnev við.

    „En ég hef alltaf ímyndað mér að einhver minjagripasafnari hafi hirt kórónuna, jafnvel áður en við héldum inn í Pétursborg."

    „Nei, sagði aðalritarinn þurrlega og lyfti loðnum augnabrúnum í hvert skipti sem hann gerði hlé á máli sínu. „Það var ekki silfurkóróna keisarans sem var numin á brott, heldur myndverkið sjálft.

    „En hvað hefur keisarinn þá gert við frummyndina?" sagði yfirmaður Öryggislögreglunnar, nánast eins og hann væri að spyrja sjálfan sig.

    „Það er einmitt það sem ég vil fá að vita, félagi, sagði Brezhnev og studdi höndunum létt á brúnir litla myndverksins fyrir framan sig. „Og þú hefur verið valinn til að finna svar við því, bætti hann við.

    Ekki var laust við að yfirmanni KGB brygði nokkuð við þessi tíðindi.

    „En hefur þú nokkrar vísbendingar til að styðjast við?"

    „Fjarska litlar, viðurkenndi aðalritarinn og opnaði möppu sem hann dró upp úr efstu skrifborðsskúffunni. Hann rýndi á þéttar vélritaðar línur undir fyrirsögninni „Gildi íkona í sögu Rússlands. Einhver hafði verið að verki alla nóttina og samið tíu síðna skýrslu sem leiðtoganum hafði aðeins gefist tóm til að lesa lauslega. Áhugi Brezhnevs vaknaði að ráði á fjórðu síðu. Hann fletti þremur fyrstu blöðunum umsvifalaust og tók síðan að lesa upphátt: „Eftir að byltingin hófst er augljóst að Nikulás II Rússakeisari hefur litið á snilldarverk Rublevs sem farseðil er hann gæti notað til að komast undan til Vesturlanda. Hann hlýtur að hafa látið gera eftirlíkingu sem hann skildi eftir á veggnum í skrifstofu sinni þar sem frummyndin hafði áður hangið. Rússneski leiðtoginn leit upp. „Að þessu frátöldu höfum við fátt að styðjast við.

    Yfirmaður KGB var ráðvilltur á svip. Hvers vegna var Brezhnev að láta Öryggislögregluna rannsaka þjófnað á fremur smávægilegu listaverki? spurði hann og reyndi að næla sér í eina vísbendingu enn.

    Leonid Brezhnev horfði niður á starfsbróður sinn. „Ekkert gæti verið mikilvægara, félagi, hljóðaði hið óvænta svar. „Og ég heimila þér hvaðeina sem þú telur þurfa af fé og mannafla til að komast að því hvar Keisaraíkoninn er að finna.

    „Ef ég tæki þig nú á orðinu, félagi aðalritari, sagði yfirmaður KGB og reyndi að leyna furðu sinni, „gæti hæglega farið svo að ég eyddi langtum meira en verðgildi myndarinnar nemur.

    „Það væri óhugsandi, sagði Brezhnev og þagnaði til að ljá orðum sínum áherslu, „af því að það er ekki íkoninn sjálfur sem ég sækist eftir. Hann sneri baki við yfirmanni Öryggislögreglunnar og tók að horfa út um gluggann. Hann hafði alltaf kunnað því illa að sjá ekki yfir Kremlarmúr út á Rauða torgið. Hann þagði nokkra hríð en sagði síðan: „Féð sem keisarinn hefði getað haft upp úr sölu þessa listaverks hefði ekki nægt honum til venjulegs viðurværis nema í nokkra mánuði, ef til vill ár í hæsta lagi. Nei, það er það sem við höldum keisarann hafa falið INNI í Keisaraíkoninum sem hefði tryggt keisaranum og fjölskyldu hans örugga daga til æviloka."

    Kringlóttur móðublettur myndaðist á gluggarúðunni framan við aðalritarann.

    „Hvað gæti verið svona verðmætt?" spurði yfirmaður Öryggislögreglunnar.

    „Manst þú, félagi, hverju keisarinn hét Lenin í skiptum fyrir líf sitt?"

    „Já, en það reyndist vera blekking, af því að slikt skjal fannst hvergi falið… Hann beit á vörina og þagnaði rétt áður en hann sagði „í íkoninum.

    Zaborski stóð þögull og forðaðist að líta á sigurbros Brezhnevs.

    „Þarna náðir þú mér loksins, félagi. Skjalið var nefnilega alltaf falið í íkoninum. Við vorum bara með rangan íkon í höndunum."

    Rússneski leiðtoginn þagði litla hríð en sneri sér síðan við og rétti félaga sínum blað. „Þetta er yfirlýsing keisarans varðandi það sem átti að vera fólgið í íkon með heilögum Georg og drekanum. Í íkoninum var þá ekkert að finna, og af því dró Lenin þá ályktun að keisarinn hefði aðeins haft örvæntingarfulla blekkingu í frammi til að forða fjölskyldu sinni frá lífláti."

    Zaborski las handskrifaða yfirlýsinguna hægt. Hún hafði verið undirrituð af keisaranum fáeinum stundum áður en hann var tekinn af lífi. Hendur Zaborskis urðu óstyrkar og svitinn perlaði á enni hans löngu áður en lestrinum lauk. Hann leit yfir á ofur smátt myndverkið, engu stærra en bók sem lá á miðju borðinu framan við þjóðarleiðtogann.

    „Síðan Lenin dó hefur enginn tekið yfirlýsingu keisarans trúanlega, hélt Brezhnev áfram. „En nú leikur lítill vafi á því að við komumst líka yfir hið umrædda skjal ef við festum hendur á frummyndinni sjálfri.

    „Og enginn gæti vefengt löglegt tilkall okkar, þegar á undirskriftina er litið," sagði Zaborski.

    „Það leikur enginn vafi á því, félagi, ansaði rússneski leiðtoginn. „Og ég er líka sannfærður um það að við nytum stuðnings Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðadómstólsins ef Bandaríkjamenn reyndu að vefengja rétt okkar. En ég óttast að tíminn sé okkur andsnúinn."

    „Hvers vegna?" spurði yfirmaður Öryggislögreglunnar.

    „Líttu á tímamörkin í yfirlýsingu keisarans og þá sérð þú hvaða svigrúm við höfum til að standa við okkar hluta samkomulagsins," sagði Breshnev.

    Zaborski rýndi á dagsetninguna sem skrifuð var með hendi keisarans — 20. júní 1966. Hann rétti yfirboðara sínum yfirlýsinguna og hugleiddi þá reginþraut sem honum hafði verið lögð á herðar. Leonid Ilyich Brezhnev hélt einræðum sínum áfram.

    „Af þessu getur þú séð, félagi Zaborski, að við höfum aðeins einn mánuð til stefnu. En takist þér að finna hvar hinn upprunalegi íkon er niður kominn, væri varnaráætlun Johnsons forseta ónýtt með öllu og eftir það yrðu Bandaríkin ekki annað en peð á rússneska skákborðinu."

    2. KAFLI

    APPLESHAW Í ENGLANDI

    júní 1966

    „Og ástkærum einkasyni mínum, Adam Scott höfuðsmanni, MC, ánafna ég fimm hundruð pund."

    Þótt Adam hefði þegar búist við að fá óveru í sinn hlut, sat hann teinréttur í stólnum og haggaðist hvergi er lögfræðingurinn leit upp yfir hálfmánalöguð gleraugu sín.

    Gamli lögfræðingurinn sem sat innan við stóra lögmannaskrifborðið leit upp og pírði augun á myndarlega unga manninn fyrir framan hann. Adam renndi óstyrkri hendi gegnum þétt svart hár sitt og leið allt í einu heldur óþægilega undir augnaráði gamla mannsins. Svo leit Holbrooke aftur á blöðin fyrir framan sig.

    „Og ástkærri dóttur minni, Margréti Scott, ánafna ég fjögur hundruð pund." Adam gat ekki stillt sig um að glotta svolítið. Faðir hans hafði haldið í karlrembuna fram á hinstu stund.

    „Krikketklúbbnum í Hampshire County ánafna ég tuttugu og fimm pund, las Holbrooke áfram blæbrigðalausri röddu og kærði sig kollóttan um skarðan hlut ungfrú Scott, „það er ævifélagagjald. Greitt upp, seint og um síðir, hugsaði Adam. „Old Contemptibles ánafna ég fimmtán pund og sóknarkirkjunni í Appleshaw tíu pund." Dánargjald um aldur og ævi, hugsaði Adam. „Wilf Proudfoot, trúum og dyggum garðyrkjumanni okkar í hlutastarfi, ánafna ég tíu pund og frú Mavis Cox, heimilishjálp okkar á degi hverjum, fimm pund.

    Og loks ánafna ég ástkærri eiginkonu minni, Susan, heimili okkar og aðrar eignir mínar."

    Nú munaði minnstu að Adam skellti upp úr. Það var hæpið að aðrar eignir pabba væru meira en eitt þúsund pund, þótt verðbréfin væru seld og gömlu golfkylfurnar.

    En móðirin var dóttir hersveitarinnar og ekki líkleg til að kvarta, hún gerði það aldrei. Ef guð tæki einhvern tíma upp á því að skipa fólk í dýrlingatölu, til mótvægis við einhvern páfa í Róm, þá yrði heilög Susan frá Appleshaw þar í flokki ásamt Maríu og Elisabet. Alla sina tíð hafði „pabbi", eins og Adam kallaði hann alltaf í huganum, gert miklar kröfur til lífshátta fjölskyldunnar. Ef til vill var það orsök þess að Adam dáði hann enn sem fyrr meir en alla aðra menn. En tilhugsunin um þetta olli því stundum að honum fannst hann einkennilega utangátta á lífsglöðum sjöunda áratugnum.

    Adam fór að mjaka sér til í stólnum; þessari athöfn hlaut nú senn að ljúka. Það var best að sleppa sem fyrst út úr þessari þröngu ömurlegu skrifstofukytru.

    Holbrooke leit upp einu sinni enn og ræskti sig, rétt eins og hann ætlaði nú að tilkynna hver ætti að hreppa Goya-málverkið eða Habsborgardemantana. Hann ýtti hálfmánalöguðum gleraugum sínum lengra upp á nefið og rýndi niður á síðustu greinina í erfðaskrá látins skjólstæðings hans. Eftirlifandi meðlimir Scott-fjölskyldunnar sátu þegjandi. Hvað átti hann eftir ósagt? hugsaði Adam.

    Hvað sem það var, hafði lögfræðingurinn augsýnilega velt síðasta atriðinu fyrir sér þó nokkrum sinnum, því að nú mælti hann það fram eins og þaulvanur leikari og renndi augum aðeins einu sinni á textann.

    „Og enn fremur arfleiði ég son minn — hér gerði Holbrooke hlé á máli sínu — „að lokaða umslaginu, sagði hann og hélt því á loft, „sem ég vona aðeins að verði honum til meiri gæfu en það hefur fært mér. Fari svo að hann opni umslagið, fylgir það skilyrði að hann geri ekkert uppskátt um innihald þess við nokkra lifandi mannveru." Adam leit á systur sína, en hún hristi bara höfuðið lítið eitt og var sjáanlega jafnhissa og hann. Hann leit snöggt á móður sína og hún virtist miður sin. Var það ótti eða sálarkvöl? Adam vissi ekki hvort heldur var. Holbrooke hafði ekki fleiri orð um þetta en rétti einkasyni ofurstans gulnað umslagið.

    Allir sátu kyrrir í sætum sínum og vissu ekki gjörla hvað gera skyldi. Loks lokaði Holbrooke þunnri möppunni sem merkt var Gerald Scott ofursta, DSO, OBE, MC, ýtti stól sínum frá borðinu og gekk hægum skrefum yfir að glugganum. Þau kvöddust með handabandi og hún sagði: „Þakka yður fyrir." Þetta var hálfhlægileg kurteisi eins og á stóð, hugsaði Adam; eini aðilinn þarna inni sem hagnast hafði á þessum viðskiptum hafði verið Holbrooke sjálfur, og það hafði hann gert fyrir hönd Holbrooke, Holbrooke og Gascoigne.

    Hann stóð á fætur og flýtti sér yfir til móður sinnar.

    „Má bjóða yður te með okkur, Holbrooke?" spurði hún.

    „Ég er hræddur um ekki, kæra frú," hóf lögfræðingurinn máls, en Adam hafði ekki fyrir því að hlusta á framhaldið. Auðheyrt var að þóknunin hafði ekki nægt til þess að gefa Holbrooke tóm til tedrykkju.

    Þegar út var komið og Adam hafði komið móður sinni og systur þægilega fyrir í aftursæti Morris Minor fjölskyldubifreiðarinnar, settist hann sjálfur undir stýri. Hann hafði lagt bifreiðinni framan við skrifstofu Holbrook á High Street miðju. Það voru engin gul strik á götunum í Appleshaw — ekki enn, hugsaði hann. Hann var ekki búinn að ræsa vélina þegar móðir hans sneri sér beint að efninu eins og ekkert væri. „Við verðum að losa okkur við hann. Ég hef engin efni á að eiga bíl, eins og bensínverðið er orðið."

    „Við skulum ekki hafa áhyggjur af því núna, sagði Margrét róandi, en röddin gaf til kynna að hún væri sama sinnis og móðir hennar. „Hvað skyldi annars vera í þessu umslagi, Adam? bætti hún við til að snúa talinu að öðru.

    „Sennilega nákvæm fyrirmæli um hvernig á að ráðstafa þessum fimm hundruð pundum mínum," sagði bróðir hennar og reyndi að slá á léttari strengi.

    „Gerðu ekki gys að þeim sem dánir eru," sagði móðir hans og aftur brá óttasvip fyrir á andliti hennar.

    „Ég sárbað hann föður þinn að eyðileggja umslagið," bætti hún við ofur lágt.

    Adam kipraði varirnar þegar hann áttaði sig á því að þetta hlaut að vera umslagið sem faðir hans minntist á fyrir óralöngu, þegar hann varð vitni að eina rifrildi foreldra hans sem hann hafði nokkurn tíma vitað til. Adam mundi enn hvernig faðir hans hafði brýnt raustina og verið orðhvass fáeinum dögum eftir heimkomuna frá Þýskalandi.

    „Ég verð að opna það, skilurðu það ekki?" sagði hann ákveðinn.

    „Kemur ekki til greina, svaraði móðir hans. „Eftir allar þær fórnir sem ég hef orðið að færa get ég þó krafist þess.

    Meira en tuttugu ár voru liðin frá þessum atburði og hann hafði aldrei heyrt minnst á atvikið við systur sína, en hún þekkti enga lausn á þeirri ráðgátu.

    Adam hemlaði þegar hann kom að gatnamótunum við endann á High Street.

    Hann beygði til hægri og ók áfram út úr þorpinu eftir bugðóttum sveitavegi nærri tveggja kílómétra leið áður en hann stöðvaði gömlu Morris-bifreiðina. Adam snaraðist út og opnaði tiglótta grindahliðið á heimreiðinni sem lá gegnum snyrtilega grasflöt heim að litlu húsi með stráþaki.

    „Þér veitir víst ekki af að flýta þér aftur til London," sagði móðir hans um leið og þau gengu inn í stofuna.

    „Mér liggur ekkert á, mamma. Það er ekkert þar sem ekki getur beðið til morguns."

    „Hafðu það eins og þér sýnist, góði, en þú þarft ekki að hafa áhyggjur af mér, hélt móðir hans áfram. Hún horfði upp á hávaxna unga manninn sem minnti hana svo mikið á Gerald. Hann hefði verið jafnmyndarlegur og maðurinn hennar sálugi ef ekki hefði verið þessi smáhlykkur á nefinu. Þarna var sama svarta hárið og djúpu brúnu augun, sama opinskáa heiðarlega andlitið, meira að segja sama ljúfa viðmótið við alla sem höfðu kynni af honum. En fyrst og fremst fann hún þarna alla sömu háþróuðu siðgæðiskenndina sem hafði orðið þeim til ófarnaðar. „Og þar að auki hef ég svo Margréti mér til aðstoðar, bætti hún við. Adam leit á systur sína og velti því fyrir sér hvernig henni gengi nú að komast til ráðs við heilaga Susan í Appleshaw.

    Stutt var síðan Margrét trúlofaðist verðbréfasala í City, og þótt giftingu hefði verið slegið á frest var þess skammt að bíða að hún vildi fara að lifa eigin lífi. Til allrar hamingju var kærastinn þegar farinn að borga af litlu húsi eina tuttugu kílómétra í burtu.

    Þegar þau höfðu drukkið te og hlustað þegjandi á dapurlegar einræður móðurinnar um mannkosti og ill örlög föður þeirra, bar Margrét fram af borðinu og skildi þau tvö eftir ein þarna inni. Þau höfðu bæði elskað hann á svo ólíka vegu, þótt Adam fyndist reyndar að hann hefði aldrei gefið pabba sínum til kynna hversu mjög hann leit upp til hans.

    „Þú ert nú ekki lengur í hernum, góði minn, svo að ég vona að þér takist að finna almennilegt starf," sagði móðir hans kvíðafull. Hún minntist þess hve það hafði reynst föður hans erfitt verk.

    „Ég er viss um að þetta gengur allt saman vel, mamma, ansaði hann. „Utanríkisráðuneytið hefur gert boð eftir mér aftur, bætti hann við og reyndi að róa hana.

    „Þú hefur þó þessi fimm hundruð pund handa sjálfum þér, sagði hún, „þau ættu að létta þér lífið svolítið. Adam brosti hlýlega til móður sinnar; hvað skyldi vera langt síðan hún hafði verið heilan dag í London. Hlutdeild hans í íbúðinni í Chelsea kostaði hann fjögur pund á viku, þótt ekki væri annað, og enn þurfti hann að borða stöku sinnum. Hún leit upp og horfði á klukkuna á arinhillunni. „Þú ættir að fara að leggja af stað, góði minn. Ég kann ekki við að vita af þér á mótorhjólinu eftir að dimmt er orðið."

    Adam beygði sig og kyssti hana á kinnina. „Ég hringi til þín á morgun, sagði hann. Hann leit inn í eldhúsgættina á leiðinni út og kallaði til systur sinnar: „Ég er að fara og ég sendi þér fimmtíu punda ávísun.

    „Hvers vegna?" spurði Margrét og leit upp við vaskinn.

    „Við segjum bara að það sé stuðningur við jafnrétti kynjanna." Hann lokaði eldhúsdyrunum í skyndi til að sleppa við diskaþurrkuna sem kastað var í áttina til hans. Adam ræsti BSA-hjól sitt og ók út eftir A303 gegnum Andover og áleiðis til London. Nú lá aðalumferðarstraumurinn vestur á bóginn út úr borginni og átti hann því greiða leið heim til íbúðarinnar við Ifield Road.

    Adam hafði ákveðið að opna ekki umslagið fyrr en hann væri kominn í næði uppi í herbergi sínu. Spenningurinn í lífi hans hafði ekki verið með þeim hætti upp á síðkastið að hann gæti gert lítið úr þessari athöfn. Snnnleikurinn var sá að hann hafði beðið þess lengstan hluta ævi sinnar að komast á snoðir um það hvað umslagið hefði að geyma.

    Faðir Adams hafði sagt honum frá fjölskylduógæfunni oft og mörgum sinnum. „Þarna er fyrst og fremst heiður í húfi, drengur minn," hafði faðir hans sagt einu sinni enn, lyft hökunni og spennt axlirnar aftur. Faðir Adams hafði ekki gert sér grein fyrir því að alla sína tíð hafði hann orðið áheyrandi að meinlegum athugasemdum sér minni manna og orðið að þola augnagotur yfirmanna sem gættu þess að láta ekki sjá sig of reglulega í félagsskap hans. Litlir menn smáir í sniðum. Adam þekkti föður sinn of vel til að trúa því eitt einasta andartak að hann hefði átt hlut að þeim svikráðum sem talað var um í hvíslingum. Adam tók aðra höndina af stýrinu og þreifaði á umslaginu í brjóstvasanum. Hann fór að eins og skóladrengur gerir daginn fyrir afmælisdaginn, þegar hann þreifar á gjöf til þess að geta sér til um innihaldið. Hann var sannfærður um það að hvað sem umslagið hefði að geyma kæmi það engum að haldi eftir dauða föður hans, en forvitnin var engu minni þrátt fyrir það.

    Hann reyndi að raða saman þeim fáu atriðum sem honum hafði verið sagt frá á liðnum árum. Árið 1946 hafði faðir hans sagt lausri stöðu sinni í hernum, tæpu ári fyrir fimmtugsafmælið. The Times hafði kallað pabba stórsnjallan herstjórnanda með frækilegan feril að baki. Lausnarbeiðni hans hafði komið fréttaritara The Times á óvart, komið flatt upp á nánustu ættmenni og verið áfall fyrir hersveit hans. Allir sem til hans þekktu höfðu vænst þess að hann yrði hækkaður í tigninni innan fárra mánaða.

    Óvænt og óskýrð afsögn ofurstans ýtti undir hvers kyns sögusagnir. Þegar leitað var skýringa á þessu athæfi, gat ofurstinn þess eins að hann hefði fengið nóg af stríði og talið tímabært að efnast lítið eitt til þess að hann og Susan gætu sest í helgan stein áður en það væri um seinan. Fáir lögðu trúnað á þetta þá og enn færri síðar þegar ofurstanum reyndist erfitt að fá sómasamlegt starf og gerðist ritari golfklúbbs í grenndinni.

    Það var örlæti afa gamla að þakka, Sir Pelham Westlake hershöfðingja, að Adam gat haldið áfram námi sínu í Wellington College og fékk þar með tækifæri til að fylgja hefð ættarinnar og leita sér frama í hernum.

    Að námi loknu bauðst Adam skólavist í Konunglega herskólanum — Royal Military Academy í Sandhurst. Í námi sínu þar lagði Adam mikla stund á hernaðarsögu, herkænskubrögð og baráttuhætti en einbeitti sér að rugby og veggjabolta um helgar; þó vegnaði honum albest í víðavangshlaupunum. Í tvö ár sáu móðir og másandi liðsforingjanemar frá Cranwell og Dartmouth aðeins aurslettótt bakið á Adam, sem þreytti þolhlaupin með áfergju og varð meistari meðal herskólanema. Hann varð líka hnefaleikameistari í milliþyngdarflokki þótt liðsforingjanemi frá Nígeríu nefbryti hann í fyrstu lotu lokakeppninnar. Nígeríumanninum varð sú skyssa á að halda að keppninni væri þar með lokið.

    Þegar Adam lauk námi í Sandhurst í ágúst 1956, varð hann níundi í röðinni í einkunnum, en forystuhæfileikar hans og fordæmi utan kennslustunda voru með þeim hætti að það kom engum á óvart þegar Heiðurssverðið féll í hans hlut. Frá þeirri stundu var Adam viss í sinni sök: Hann ætlaði að feta í fótspor föður síns og taka við stjórn hersveitarinnar.

    Royal Wessex hersveitin tók við ofurstasyninum skömmu eftir að hann hafði verið skipaður liðsforingi. Adam öðlaðist brátt virðingu hermannanna og vinsældir þeirra yfirmanna sem lögðu ekki eyru við slúðursögum. Hann bar af öðrum í herkænsku og þegar í harðbakkann sló lék enginn vafi á því að hann hafði erft ódeigan kjark föður síns. Þó fór svo, sex árum síðar, er hermálaráðuneytið birti nöfn þeirra undirforingja sem skipaðir höfðu verið höfuðsmenn, að Adam Scott liðsforingi var ekki í þeirra hópi. Jafnaldrar hans furðuðu sig mjög á þessu, en æðri foringjar í herdeildinni vildu sem fæst um málið segja. Adam varð nú ærið ljóst að hann fengi ekkert tækifæri til að bæta fyrir eitt eða neitt sem faðir hans var talinn hafa gert.

    Seint og um síðir var Adam skipaður höfuðsmaður, en þó ekki fyrr en hann hafði sannað dug sinn í frumskógum Malaya þar sem hann barðist í návígi við endalausar sóknarbylgjur kínverskra hermanna. Kommúnistar náðu honum og höfðu hann í haldi um hríð og þar kynntist hann einsemd og pyntingum af því tagi sem engin þjálfun hefði getað búið hann undir. Honum tókst að flýja eftir átta mánaða fangavist og frétti það þegar hann komst aftur til vígstöðvanna að hann hefði verið sæmdur Herkrossinum — Military Cross — að honum látnum. Þegar Scott höfuðsmaður lauk æðra prófi tuttugu og níu ára að aldri, án þess að eygja von um viðeigandi stöðuhækkun, lét hann sér loksins skiljast að hersveitarstjórn væri algerlega utan seilingar. Hann sagði af sér liðsforingjatign fáeinum vikum síðar; það var óþarft fyrir hann að gefa í skyn að hann væri í fjárþröng og gerði þetta fyrir þá sök.

    Meðan Adam lauk síðustu mánuðunum í hersveitinni frétti hann hjá móður sinni að pabbi ætti skammt eftir ólifað. Adam afréð að segja föður sínum ekki frá uppsögn sinni. Hann vissi að pabbi myndi kenna sjálfum sér um og hann þakkaði þó að minnsta kosti fyrir það að hann hefði dáið án þess að hafa hugmynd um skömmina sem fylgdi syni hans í daglegu lífi.

    Þegar Adam nálgaðist úthverfi London hvarflaði hugur hans einu sinni enn að hinni knýjandi atvinnuleit. Á þeim sjö vikum sem Adam hafði verið atvinnulaus hafði hann rætt oftar við bankastjórann sinn en hugsanlega vinnuveitendur. Hann átti pantað annað viðtal í utanríkisráðuneytinu, satt var það, en honum hafði fundist til um stěrka stöðu annarra umsækjenda sem hann hefði hitt á leið sinni og gerði sér ljósa grein fyrir veikri stöðu sinni í háskólagreinum. Þó fannst honum fyrsta viðtalið hafa tekist vel og honum hafði verið bent á hve margir fyrrverandi foringjar úr hernum hefðu gengið þarna til starfa. Svo frétti Adam að formaður ráðningarnefndarinnar væri handhafi Herkrossins og þóttist hann þá vita að sér væri ekki ætluð skrifstofustörf.

    Um leið og Adam renndi mótorhjóli sínu inn á Kings Road þreifaði hann á umslaginu í brjóstvasanum einu sinni enn og vonaði innra með sér að Lawrence væri enn ókominn úr bankanum. Ekki svo að skilja að hann væri að kvarta: Það hafði verið vel gert af gamla skólafélaganum að bjóða honum skemmtilegt herbergi í rúmgóðri íbúð sinni fyrir ein fjögur pund á viku.

    „Þú getur borgað meira þegar þeir gera þig að sendiherra," hafði Lawrence sagt.

    „Mér þykir þú vera farinn að líkjast Rachamann," hafði Adam svarað að bragði og brosað breitt framan í manninn sem hann hafði dáð svo mjög meðan þeir voru saman í Wellington. Það var nefnilega engu líkara en Lawrence kæmist svo auðveldlega frá hverju sem var — gagnstætt því sem sagt varð um Adam — prófum, störfum, íþróttum og kvenfólki, sér í lagi kvenfólki. Það hafði ekki komið neinum á óvart þegar hann náði inngöngu í Balliol og stóð sig þar með sóma. En jafnaldrar Lawrence gátu ekki dulið furðu sína þegar hann hugðist leggja fyrir sig bankastarfsemi. Það virtist fyrsta dæmi þess að hann sneri sér að einhverju sem kalla mætti hversdagslegt.

    Adam lagði mótorhjóli sínu rétt utan við Ifield Road. Hann vissi ofur vel að hann yrði að selja það, ekki síður en gömlu fjölskyldubifreiðina, ef ekkert yrði úr starfi í utanríkisráðuneytinu. Hann gekk hægum skrefum í átt til íbúðarinnar og stúlka sem gekk í gagnstæða átt horfði íhugul á hann, en hann gaf því engan gaum. Hann tók þrjú þrep í skrefi upp stigann, var kominn upp á fimmtu hæð og farinn að stinga Yale-lykli sínum í skrána þegar kallað var að innan: „Það er ólæst."

    „Fjandinn sjálfur," tautaði Adam í hálfum hljóðum.

    „Hvernig fór?" spurði Lawrence um leið og hann gekk inn í stofuna.

    „Prýðilega þegar á allt er litið," ansaði Adam og brosti til kunningjans; var hægt að segja nokkuð annað? Lawrence hafði þegar haft fataskipti, farið úr City-fötunum í léttan jakka og gráar buxur. Hann var heldur lægri og þreknari en Adam, ljós á hár og stríðhærður; ennið var stórt og eins konar spurnarsvipur í gráum íhugulum augunum.

    „Ég hafði mikið álit á föður þínum, bætti hann við. „Hann ímyndaði sér alltaf að aðrir gerðu sömu kröfur og hann sjálfur. Adam mundi enn þegar hann kynnti Lawrence fyrir föður sínum dálítið óstyrkur í bragði. Þeir höfðu orðið městu mátar á stundinni. Lawrence var ekki heldur einn af þeim sem velti sér upp úr sögusögnum.

    „Þá er hægt að lifa ljúfu lífi á fjölskylduarfinum, eða hvað?" spurði Lawrence léttur í bragði.

    „Það held ég varia, ekki nema þessi vafasami banki sem þú vinnur í kunni að breyta fimm hundruð pundum í fimm þúsund á fáeinum dögum."

    „Það er nú ekki hægt eins og er, gamli minn — Harold Wilson er reyndar búinn að auglýsa bindingu á kaupgjaldi og verðlagi."

    Adam brosti þegar hann leit á vin sinn. Hann var vaxinn honum yfir höfuð núna, en hann mundi enn þá tíð þegar honum hafði fundist Lawrence mesti risi.

    „Enn ertu seinn, Scott," var vanaviðkvæði hans þegar Adam skaust fram hjá honum á ganginum. Adam hafði hlakkað til þeirra daga þegar hann gæti gert hvað sem væri með þessum sama rólega glæsibrag. Eða var glæsibragurinn kannski Lawrence í blóð borinn? Fötin hans sýndust alltaf svo vel pressuð, skórnir gljáandi og aldrei hafði eitt einasta hár haggast á höfði hans. Enn hafði Adam ekki skilið hvernig honum tókst þetta allt svona fyrirhafnarlaust. Adam heyrði að baðherbergisdyrnar voru opnaðar. Hann leit spyrjandi á Lawrence.

    „Það er Carolyn, hvíslaði Lawrence. „Hún verður hérna í nótt… hugsa ég.

    Adam brosti feimnislega til hávöxnu glæsilegu konunnar þegar hún gekk inn í stofuna. Sítt ljóst hárið bylgjaðist um herðar hennar er hún gekk yfir til þeirra, en það var hinn lýtalausi líkamsvöxtur sem flestum karlmönnum varð svo starsýnt á. Hvernig fór Lawrence að þessu?

    „Viltu koma og borða með okkur? spurði Lawrence og lagði handlegginn um herðar Carolyn. Áfergjan í röddinni var allt í einu orðin heldur mikil. „Ég komst á snoðir um þennan ítalska veitingastað sem var verið að opna við Fulham Road.

    „Ég lít kannski til ykkar á eftir, sagði Adam, „en ég er með fáein blöð síðan í dag sem ég þarf að líta nánar á.

    „Láttu þessi smáatriði úr erfðaskránni eiga sig, væni minn. Væri ekki ráð að slást í för með okkur og eyða öllum sjóðnum í stóra spaghettiveislu?"

    „Nei, varstu að erfa mikið af aurum?" spurði Carolyn svo mjórri og skrækri röddu að enginn hefði undrast þótt hún hefði verið kosin samkvæmisdama ársins.

    „Ekki er það nú, sagði Adam, „miðað við núverandi yfirdrátt minn.

    Lawrence hló. „Jæja, þú lítur inn seinna ef þú heldur að þú eigir nóg eftir fyrir disk af pasta. Hann drap tittlinga framan í Adam — hin kunnuglega bending sem þýddi: „Þú verður farinn út þegar við komum aftur, eða vertu að minnsta kosti inni hjá þér og láttu sem þú sofir.

    „Já, komdu endilega," kurraði Carolyn og málrómurinn benti til þess að hugur fylgdi máli. Brún augu hennar litu ekki af Adam meðan Lawrence stýrði henni einbeittur í átt til dyra.

    Adam hreyfði sig ekki fyrr en hann var hættur að heyra gjallandi rödd hennar niðri í stiganum. Þá gekk hann inn í svefnherbergi sitt og læsti að sér. Adam settist í eina þægilega stólinn sem hann átti og dró umslag föður síns upp úr brjóstvasanum. Það var eitt af dýru efnismiklu umslögunum sem pabbi hafði alltaf notað. Hann keypti þau hjá Smythson í Bond Street og þau voru næstum tvöfalt dýrari en umslögin sem hann gat keypt í ritfangaverslun W.H.Smiths í grenndinni. „Adam Scott höfuðsmaður, MC" stóð á umslaginu með snyrtilegri koparstungurithönd föður hans.

    Adam opnaði umslagið með varúð, lítið eitt skjálfhentur, og dró upp það sem í því var: bréf með kunnuglegri rithönd föður hans og nokkru minna umslag, greinilega gamalt og gulnað af elli. Á gamla umslaginu stóð „Gerald Scott ofursti", skrifað með ókunnuglegri rithönd og dofnuðu bleki sem ekki var gott að segja um lit á. Adam lagði gamla umslagið á litla borðið við hlið hans, fletti sundur bréfi föður síns og tók að lesa. Bréfið var ódagsett.

    Kæri Adam.

    Á liðnum árum hefur þú heyrt margar skýringar á óvæntri brottför minni úr hernum. Flestar hafa þær eflaust verið fjarstæðukenndar og einhverjar ærumeiðandi, en ég hef alltaf talið það heppilegast fyrir alla sem hlut eiga að máli að segja sem fæst. Mér finnst þú hins vegar eiga rétt á því að ég skýri málið nánar, og það ætla ég nú að gera.

    Eins og þú veist, gegndi ég síðast skyldustörfum í Nürnberg áður en ég sagði upp stöðu minni; það var frá febrúar 1945 fram í október 1946. Eftir fjögurra ára hvíldarlitla þjónustu á vígvellinum var mér falin yfirstjórn bresku deildarinnar sem bar ábyrgð á þeim yfirmönnum nasista sem leiddir skyldu fyrir rétt fyrir stríðsglæpi. Bandaríkjamenn báru meginábyrgð á þessu máli, en samt kynntist ég þessum fyrirliðum býsna vel og eftir ár eða þar um bil var mér meira að segja farið að líka bærilega við suma þeirra — sér í lagi Hess, Dönitz og Speer — og ég velti því oft fyrir mér hvernig Þjóðverjar hefðu komið fram við okkur ef allt hefði farið á annan veg. Slíkar hugleiðingar þóttu mesta óhæfa á þeim tíma. Þeir sem aldrei velta hlutunum nánar fyrir sér fjasa um slikt og tala um að „vingast við óvinina".

    Hermann Göring ríkismarskálkur var einn af nasistaforingjunum sem ég hafði dagleg skipti við, en gagnstætt þremenningunum sem ég nefndi áðan hafði ég ógeð á honum, alveg frá fyrstu kynnum okkar. Mér fannst maðurinn hrokafullur, drembilátur og gersamlega iðrunarlaus yfir allri villimennskunni sem hann hafði haft í frammi með stríðið að átyllu. Og ég hef aldrei fengið tilefni til að breyta áliti mínu á honum. Satt að segja undraðist ég stundum hvernig ég gat haft stjórn á skapi mínu þegar ég var í grennd við hann.

    Kvöldið fyrir aftökuna æskti Göring þess að fá að tala við mig einslega. Þetta var á mánudegi og ég man öll skipti okkar eins skýrt og þau hefðu átt sér stað í gær. Eg fékk beiðnina í hendur þegar ég tók við varðstöðunni af Vladimar Kosky majór. Kosky afhenti mér þessi skriflegu skilaboð meira að segja sjálfur. Jafnskjótt og ég hafði kannað varðliðið og gengið frá venjulegri pappírsvinnu, fór ég með

    Enjoying the preview?
    Page 1 of 1